Iðjuþjálfun

Iðjuþjálfun er ein af lykilstéttum heilbrigðiskerfisins. Fagið felur í sér aðstoð við einstaklinga sem glíma við færnivanda í kjölfar veikinda eða slysa. Iðjuþjálfar sinna fólki á öllum aldri innan heilbrigðis- og menntakerfisins,  félagsþjónustunnar og hjá fyrirtækjum og stofnunum á almennum vinnumarkaði.

Iðjuþjálfar aðstoða fólk við að bæta lífsgæði með því að ná betri tökum á daglegu lífi svo sem heimilishaldi, tómstundum og launuðu starfi. Kjarni iðjuþjálfunar er að kortleggja og hafa jákvæð áhrif á samspilið milli færni og vilja einstaklingsins, þeirra krafna sem verkefnin gera til hans og hvernig umhverfið styður eða hindrar árangursríka þátttöku. Forvarnir á sviði vinnuverndar er mikilvægur vettvangur innan iðjuþjálfunar.