Vinnufærni
Vinnufærni felur í sér líkamlega, andlega og félagslega getu til að stunda launað starf og taka virkan þátt í samfélaginu. Vinnufærni felur einnig í sér tækifæri á vinnumarkaði en stuðningur vinnustaða er ómissandi hluti þess að efla og viðhalda þátttöku fólks. Það er mikilvægt að einstaklingar fái tækifæri til að halda starfi eða hefja störf á ný þrátt fyrir heilsuvanda en að sama skapi er nauðsynlegt að starfið sé hentugt og starfsumhverfið eflandi til þess að úthald á vinnumarkaði sé raunverulegur kostur.
Hvað hefur áhrif á vinnufærni?
Ýmislegt getur haft áhrif á vinnufærni fólks svo sem óhóflegt álag, veikindi eða slys. Einnig getur erfið reynsla af vinnuhlutverkinu og neikvætt viðhorf til vinnu sett strik í reikninginn.
Sá þáttur sem segir einna mest um þátttöku á vinnumarkaði er viljinn til að vera í vinnu en hann felur meðal annars í sér löngun og þörf til að tilheyra vinnumarkaðnum, trú á að sú vinnufærni sem er til staðar geti fundið sér viðeigandi farveg og hvernig einstaklingar eru í stakk búnir til að hafa áhrif á eigin framgang og tækifæri. Það er eðlilegt að einstaklingar sem hafa upplifað erfiðleika við að vera í vinnu eða misst vinnu vegna annarra þátta upplifi vinnumarkaðinn sem áskorun. Einnig geta störf verið flókin og kröfur vinnumarkaðarins oft á tíðum miklar. En ýmsar leiðir eru færar til að bæta líðan, auka færni og hafa jákvæð áhrif á viðhorf fólks til vinnu. Einnig er vinnumarkaðurinn fjölbreyttur og ýmis tækifæri til staðar sem hægt er að vinna með til að að auka líkur á farsælu starfi og aukinni atvinnuþátttöku.