Vinnandi Fólk þjónustar starfsmenn og stjórnendur
Starfsmenn - Aðstoð við að kortleggja og bæta vinnufærni í núverandi starfi eða undirbúa og styðja við endurkomu í fyrra starf eða nýtt starf.
Stjórnendur - Fræðsla og stuðningur til að auka þekkingu yfirmanna þegar efla þarf vinnufærni starfsmanna eða móta farveg fyrir endurkomu.
-

Mat á vinnufærni
Fyrir einstaklinga sem eru ekki í vinnu og upplifa óvissu varðandi möguleika sína á vinnumarkaði.
Skoðaðir eru þeir þættir sem hafa áhrif á vinnufærnina og staðan metin. Einnig er stutt við þá þætti sem efla getu og auka líkur á þátttöku á vinnumarkaði. Fræðsla um hvernig hægt er að vera í vinnu þrátt fyrir ýmiskonar heilsuvanda og mikilvægi þess að skoða hverskonar störf og starfsumhverfi hentar best. Einnig er farið í samspil þess að vera í vinnu og hvernig þátttaka á almennum vinnumarkaði getur bætt líðan og viðhaldið góðri heilsu.
-

Stuðningur í starf - endurkoma á vinnumarkað
Fyrir einstaklinga sem eru að stíga aftur inn á vinnumarkaðinn en upplifa óöryggi gagnvart endurkomuferlinu.
Störf krefjast ákveðinnar færni og yfirmenn eru ekki alltaf meðvitaðir um þarfir starfsmanna. Til að auka líkur á að einstaklingar viðhaldi/bæti heilsu og nái að fóta sig aftur í starfi getur verið mikilvægt að setja upp raunhæfa áætlun til að aðlögunin á vinnustaðnum sé árangursrík.
-

Stuðningur í núverandi starfi
Fyrir starfsmenn sem eru nú þegar í vinnu en eiga í erfiðleikum með að ráða við alla þætti starfsins.
Að halda starfi þrátt fyrir heilsubrest er hluti af forvörnum. Mikilvægt er að starfsmaðurinn fái svigrúm og tækifæri til að endurskoða og móta starfið miðað við færni og líðan á meðan unnið er að bættri heilsu. Kortlagðir eru þeir þættir sem ýta undir að starfið sé unnið á árangursríkan hátt og möguleg tækifæri innan vinnustaðarins skoðuð í samstarfi við yfirmann.
-

Stuðningur við stjórnendur
Fyrir yfirmenn sem vilja auka þekkingu og getu til að styðja við starfsmenn.
Atvinnulífið spilar stóran þátt í að efla og viðhalda vinnufærni fólks en yfirmenn eru lykilpersónur þegar starfsmaður þarf stuðning í starfi eða er að fóta sig í vinnu á nýjan leik. Til að þetta samspil sé árangursríkt þá getur verið mikilvægt að fá aðstoð við að greina stöðuna og móta viðeigandi farveg ásamt því að öðlast þekkingu á því hvernig heilsa og líðan hefur áhrif á starfsgetu.