Vinnugeta – styrkleikar og hindranir
Get ég unnið? Hverskonar vinna væri góð fyrir mig? Hvernig þarf starfsumhverfið að vera til þess að mér líði vel í vinnunni? Hvernig kemst ég í vinnu við hæfi?
Þegar einstaklingar hafa verið lengi frá vinnumarkaði er eðlilegt að svona spurningar vakni, einnig geta komið upp ýmsar vangaveltur þegar læra þarf aftur á vinnugetuna í kjölfar sjúkdóma eða slysa. Að auki eiga margir sögu um ýmsa erfiðleika á vinnumarkaði svo sem í samskiptum við vinnufélaga, skipulagningu verkefna, mætingargetu eða vegna viðvarandi álags heimafyrir. Til að þátttaka á vinnumarkaði sé bæði árangursrík og ánægjuleg þá er mikilvægt að kortleggja þá þætti sem ýta undir vinnugetu en einnig þá þætti sem hindra til að hægt sé að móta árangursríka stefnu í átt að endurkomu til vinnu.